Alþjóðalega matsfyrirtækið Moody‘s breytti í dag horfum fyrir Baa3 lánshæfiseinkunnir Ríkissjóðs Íslands, í neikvæðar úr stöðugum, vegna þeirrar óvissu sem ríkir um erlenda lausafjárstöðu þjóðarbúsins.

Frá þessu er greint á vef Seðlabankans en í skýringum Moody‘s segir að tafir á lausn Icesave deilunnar valdi því að hindrun sé á bæði opinberu lánsfjármagni sem og einkafjárfestingum á Íslandi. Moody‘s telur að Íslendingar séu þó í betri aðstöðu en áður til að semja um Icesave en óvissan skaði efnahagslífið til skamms tíma.

Þá fagnar Moody‘s því það hreyft hafi verið við samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (IMF) og von sé á annarri endurskoðun á samstarfi íslenskra stjórnvalda og IMF. Þó segir Moody‘s að endurskoðunin og lánveiting sjóðsins sé ekki nauðsynleg fyrir endurreisn efnahagslífsins.

Horfum fyrir Baa2 þak á erlendar langtímaskuldbindingar og Baa3 þak á erlendar skammtímaskuldbindingar var einnig breytt í neikvæðar úr stöðugum.

Sjá álit Moody‘s í heild sinni.