Alþjóðlega matsfyrirtækið Moodys Investors Service hefur tekið til athugunar lánshæfiseinkunn Kaupþings Aa3/C með mögulega lækkun í huga í kjölfar fyrirhugaðrar yfirtöku Kaupþings á hollenska bankanum NIBC. Á sama tíma tekur Moodys lánshæfiseinkunn NIBC til athugunar með mögulega hækkun í huga segir í tilkynningu til kauphallarinnar.

Hins vegar hefur einkunn vegna innlendra og erlendra skammtímaskuldbindinga bankans, P-1, verið staðfest, en það er jafnframt hæsta einkunn sem gefin er af Moodys. Þá hefur einkunn vegna fjárhagslegs styrkleika bankans, C sem og P-2 skammtímaeinkunn NIBC einnig verið staðfest og eru horfur stöðugar.

Ákvörðun Moodys að taka lánshæfiseinkunn Kaupþings til skoðunar með hugsanlega lækkun í huga endurspeglar veikari fjárhagsstoðir (e. financial fundamentals) hjá NIBC sem og þá áhættu sem felst í því að koma yfirtökunni í kring. Moodys bendir á mikilvægi þess að Kaupþing yfirtekur ekki safn þriðja flokks
veðskuldabréfa (e. sub-prime) sem var í eigu NIBC, heldur verður það safn áfram í eigu JC Flowers. Jafnframt telur Moodys að rekstur bankanna falli vel saman þar sem samlegðaráhrif skapist í þjónustuframboði auk þess sem yfirtakan víkki á landfræðilega dreifingu í starfssemi Kaupþings og minnki vægi íslenska markaðarins í rekstri bankans.