Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody´s tilkynnti í gærkvöldi um breyttar horfur á lánshæfiseinkunn Þýskalands, Hollands og Lúxemborgar.

Öll ríkin höfðu bestu mögulegu lánshæfiseinkunn, Aaa og voru horfurnar stöðugar. Löndin halda sömu einkunn en horfurnar horfurnar eru nú neikvæðar sem getur leitt til lækkunar lánshæfismats landanna þriggja.

Ástæða breyttra horfa er að mat matsfyrirtækisins er að löndin þrjú muni bera mikinn hluta þess kostnaðar við að verja evruna og hugsanlega enn meiri aðstoð við Grikkland eða að landið yfirgefi evrópska myntsamstarfið.

Moody´s staðfesti hins vegar einkunn Finnlands, Aaa með stöðugum horfum.

Álag á þýsk ríkisskuldabréf hefur lækkað undanfarna daga og er það til marks um traust fjárfesta á skuldum þýska ríksins. Lækki lánshæfi landsins er líklegt að traustið minnki.