Í skýrslu matsfyrirtækisins Moody's, sem birt var í dag, segir að Ísland haldist í Aaa flokknum og að framtíðarhorfur landsins séu stöðugar, en sterk staða fyrirtækja í landinu, lág skuldastaða ríkisins og sterkur efnahagur sem þoli álag eru gefnar upp sem ástæður þessa.

Aaa-einkunn á ríkisskuldabréfum endurspeglar takmarkaða áhættu á vanefndum.

"Ísland er rík og þróuð þjóð, sem stendur nú í umbótum sem sjá til þess að efnahagur landsins er að stækka og þróast," sagði höfundur skýrslunnar Joan Feldbaum-Vidra.

Feldbaum-Vidra segir þó að aðrir þættir í alþjóðaefnahagsumhverfinu hafi þar áhrif á, meðal annars mikil og sífellt stækkandi skuldasöfnun í erlendum gjaldmiðlum, þá sérstaklega hjá bönkunum.

"Sökum þess hve íslensku bankarnir eru háðir fjármagni frá öðrum markaðssvæðum er hætt við því að hækkandi vextir í heiminum sem og breyttar áherslur fjárfesta geti valdið hættuástandi, bregðist bankarnir ekki við."

?Það er mat Moody's að áhyggjur um hættuástand bankanna hafi verið ýkt, skuldir bankana hafa fjármagnað sterkar fjárfestingar og eru eigur og skuldir bankanna því í réttu jafnvægi,"

"Ef svo ólíklega vildi til að hættuástand myndi skapast hjá bönkunum, gæti ríkisstjórnin gripið þar inn í, þar sem skuldastaða þess sé mjög lág, eða 22% af vergri landsframleiðslu. Skuldastaða íslenska ríkisins er helmingi minni en meðaltal annarra ríkja með Aaa-lánshæfisflokkunina," sagði Feldbaum-Vidra.

Hún bætir við að verg landsframleiðsla á mann, sem er um 3,5 milljónir, sé mjög há miðað við önnur lönd með Aaa-flokkunina, og bendi það til þess að þróun efnahags og fyrirtækjageirans sé mjög langt komin og það sé lykillinn að þeim styrkleika sem þarf til að þola hverskonar áföll.