Mood‘s sendi rétt í þessu frá sér tilkynningu þar sem horfum vegna lánshæfiseinkunnar ríkissjóðs er breytt úr stöðugum í neikvæðar.

Moody‘s segir í skýrslu að breytingin á horfum sé fyrst og fremst tilkomin vegna breyttra lánshæfismatseinkunna íslensku bankanna, en Moody´s lækkaði lánshæfiseinkunnir íslensku viðskiptabankanna, Kaupþings, Glitnis og Landsbankans í síðustu viku.

Moody‘s segir horfurnar nú neikvæðar fyrir lánshæfiseinkunn skuldabréfa íslenska ríkisins, sem og fyrir landseinkunn innlána í erlendri mynt.

Horfurnar haldast hins vegar stöðugar fyrir Aaa/P-1 landseinkunnir Íslands fyrir skuldbindingar í erlendri og innlendri mynt, sem og innlán í krónum.

Segja íslensk stjórnvöld fullfær um að takast á við erfiðleika

Í skýrslu Moody‘s kemur fram að matsfyrirtækið að íslensk stjórnvöld séu fullfær um að takast á við það umhverfi sem íslensku bankarnir starfi nú í og þeim erfiðleikum sem nú steðja að.

Þá hælir Moody‘s lága skuldarstöðu ríkissjóðs. „Ísland er vel þróað ríki. Fjármál hins opinbera og velmegun þjóðarinnar gerir landið vel samkeppnishæft yfir önnur ríki með sömu einkunn (Aaa),“ segir í skýrslu Moody‘s.