Lánshæfistmatsfyrirtækið Moody´s telur að skuldaniðurfellingin, sem ríkisstjórn Íslands kynnti í lok nóvember, hafi jákvæð áhrif á lánshæfi Íbúðalánasjóðs, án þess að það komi niður á lánshæfi Ríkissjóðs Íslands.

Forsendan fyrir þessu sé þó sú að ríkissjóður tryggi Íbúðalánasjóð gegn frekari uppgreiðslu íbúðalána. Áhrif skuldafellinganna á bankakerfið verði þó neikvæð þar sem skuldaniðurfellingin verði fjármögnuð með bankaskatti.

Moody´s segir að kaupmáttur heimilanna muni aukast vegna skuldaniðurfellinganna. Moody´s segir að einkaneysla muni væntanlega aukast á næsta ári vegna aðgerðanna. Verðbólga muni þó aukast og vextir hækka og það muni aftur draga eitthvað úr kaupmættinum.