Matsfyrirtækið Moody's Investors Service staðfesti í dag lánshæfismat Glitnis í kjölfar kaupa bankans á sænska verðbréfafyrirtækinu Fischer Partners.

Glitnir greindi frá kaupunum fyrr í vikunni, en bankinn greiðir 3,7 milljarða íslenskra króna fyrir Fischer og yfirtekur skuldir að virði 450 milljónir króna.

Glitnir er með lánshæfismatið A1 hjá Moody's og A-mínus hjá Standard & Poor's. Kaupþing banki er einnig með lánshæfismatið A1 hjá Moody's en Landsbankinn er með lánshæfismatið A2, sem er einu þrepi lægra.

Moody's segir í tilkynningu að kaupin muni verða til þess að auka þóknunartekjur Glitnis og að Fischer falli vel að rekstri bankans á Norðurlöndum.