Alþjóðlega matsfyrirtækið Moody’s Investors Services hefur uppfært mat sitt á lánshæfi Norvik Banka (Lettlandi). Moody’s gefur bankanum einkunnina D- fyrir fjárhagslegan styrkleika (BFRS) sem samsvarar lánshæfiseinkuninni Ba3. Telur Moody’s horfur í öllum liðum stöðugar að því er kemur fram í tilkynningu frá Norvik Banka.

Meðal styrkleika bankans að mati Moody’s eru nýir hluthafar bankans og reynsla þeirra af bankastarfsemi og tengslum, innleiðing upplýsingaferla, sterkt eiginfjárhlutfall og gæði eigna.

Í tilkynningunni kemur fram að möguleiki er á að lánshæfiseinkunn bankans verði hækkuð ef félagið heldur áfram að styrkja útibúanet sitt, lausafjárstöðu sína, fjármögnun og áhættustýringu.

Norvik Banki er viðskiptabanki með eitt stærsta útibúanet Lettlands. Í lok árs 2007 var eigið fé bankans um 7,5 milljarðar króna (54 milljónir LVL) og heildareignir um 86 milljarðar króna (620 milljónir LVL). Norvik Banki er að meirihluta í eigu Straumborgar sem er fjárfestingafélag Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu.