Lánsmatsfyrirtækið Moodys ætlar að breyta því hvernig það metur flókna skuldabréfavafninga (e. collateralised debt obligations) sem eru tryggðir með veði í bandarískum undirmálslánum. Ákvörðun Moodys er tekin til þess að endurspegla hið mikla tap sem hefur orðið vegna stöðutöku í slíkum lánum, að því er Financial Times greinir frá.

Þessi breyting kemur í kjölfar þess að alþjóðleg matsfyrirtæki - meðal annarra Moodys - hafa legið undir ámæli fyrir að hafa veitt slíkum skuldabréfavafninum of háar lánshæfiseinkunnir, á sama tíma og vísbendingar hafi verið uppi um slæma viðskiptahætti í útlánaveitingum hjá fasteignalánafyrirtækjum og lækkandi húsnæðisverð.

Markaðsvirði þessara skuldabréfavafninga hefur lækkað mikið að undanförnu, samhliða auknum greiðsluerfiðleikum og vanskilum hjá húsnæðiseigendum á bandarískum fasteignamarkaði - langt umfram það sem Moodys hafði upphaflega gert ráð fyrir.

Moodys ákvað því í gær að bregðast við þessari þróun með því beita hér eftir íhaldssamari aðferðum við að ákvarða lánshæfiseinkunn tiltekinna fjármálaafurða. Fyrirtækið hyggst einnig útvíkka fyrri skilgreiningu sína á því hvað flokkist undir að vera undirmálslán. Sú breyting mun gera það að verkum að væntanlegt tap af fasteignalánum sem eru veitt gegn tilteknu veði, sem áður voru talin fremur áhættuminni en undirmálslán, verður talið vera meira en fyrri lánshæfiseinkunn spáði fyrir um.