Lánshæfisfyrirtækið Moody's hefur sent frá sér umfjöllun, „special comment“, undir yfirskriftinni „Aaa einkunn Íslands á krossgötum“. Þar kemur m.a. fram að Moodys teldi að aukin skuldsetning bankanna í erlendri mynt myndi líklega hafa neikvæð áhrif á lánstraust þjóðarinnar. Þó sé grundvallarstaða bankanna traust.

Í álitinu segir að skuldsetning bankanna sé yfir „þægilegum mörkum“. Þó telji Moody's að stjórnvöld hafi burði til að koma í veg fyrir lausafjárkreppu, vernda innlán og koma í veg fyrir truflanir á greiðslukerfum. „Miðað við núverandi stöðu búumst við við því að ríkisstjórnin gæti fært aukaskuld til að aðstoða bankana á efnahagsreikning sinn, án þess að skuldastaða ríkissjóðs færi út fyrir Aaa einkunnina. Að auki má benda á að íslensku bankarnir eru í grundvallaratriðum heilbrigðir, með sterk einkaumboð, nægt lausafé og mun hagstæðari gjalddagauppbyggingu á fjármögnun sinni en áður,“ segir m.a. í greiningunni.