Moon Jae-in, frambjóðandi Frjálslynda flokks Suður-Kóreu, sigraði forsetakosningar í landinu ef marka má fyrstu tölur. Gert er ráð fyrir því að Moon fái 41,4% atkvæða, en að helsti keppinautur hans, hinn íhaldsami Hong Joon-Pyo hljóti 23,3% atkvæða að því er kemur fram í frétt BBC.

Moon hefur verið hlynntur aukinni samræðu við Norður-kóresk stjórnvöld sem væri breyting á núverandi stefnu Suður-Kóreu, en Suður-Kóreumenn hafa hert talsvert á viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu á síðustu misserum. Síðast þegar flokkur Moon var í ríkisstjórn, snemma á 21. öldinni, var tekin upp svokölluð „Sólskinsstefna“ sem kvað á um aukið samtarf milli ríkjanna tveggja.

Halda þurfti kosningar vegna þess að Park Geun-hye, sem var forseti Suður-Kóreu, var ákærð fyrir embættissvik vegna umfangsmikils spillingarmáls. Spillingarmálið tengist sambandi hennar við trúnaðarvinkonu sína Choi Soon-il, sem hefur verið sökuð um að hafa notað sambönd sín við forseta landsins til þess að auðgast og gera samninga við stórfyrirtæki í stað þess að fá pólitísk vilyrði. Saksóknarar telja að Park hafi spilað talsvert stórt hlutverk í spillingarmálinu.