The MoonLite Project hyggst reisa gagnaver á Íslandi til að „grafa“ eftir rafmyntum á borð við Bitcoin, DASH, Litecoin og Etherium. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í apríl næstkomandi, með það fyrir augum að gagnaverið hefji starfsemi í ágúst.

Á vefsíðu MoonLite kemur fram að gagnaverið verði knúið áfram að öllu leyti með sjálfbærum og endurnýjanlegum orkugjöfum.  Rafmyntir hafa sætt mikilli gagnrýni fyrir þá miklu orku sem krafist er í framleiðslu þeirra, auk þess að halda úti greiðslukerfunum. Bitcoin-kerfið notar til að mynda meiri orku en Ísland . Stefna MoonLite er þó að stunda stórfellda námuvinnslu á rafmyntum eingöngu með grænni orku.

Ísland þykir ákjósanlegur staður til að grafa eftir rafmyntum. Kalda loftið og vindurinn kæla tölvurnar sem notaðar eru í framleiðslunni, sem sparar orkukostnað. Þar að auki er ofgnótt vistvænnar raforku á Íslandi.

Vinnsla á rafmyntum er umfangsmikill iðnaður hér á landi, en til að mynda heldur kanadíska fyrirtækið Genesis úti gagnaveri fyrir rafmyntanámu á Fitjum í Reykjanesbæ.

MoonLite kveðst vera með framboðssamninga fyrir hreina orku á föstum kjörum til langs tíma. Digital Trends greinir frá því að orkugeta gagnaversins verði 15 megavött til að byrja með og áætlar MoonLite að andvirði framleiðslunnar á rafmyntum í hverjum mánuði verði 8 milljónir Bandaríkjadollara eða rúmlega 807 milljónir króna. Fyrirtækið hyggst nota gervigreind og annan hátæknibúnað til að hámarka hagnað og skilvirkni í námuvinnslunni.

Stofnandi MoonLite Project er Eric Krige. MoonLite er með skrifstofur í London og Pretoríu í Suður-Afríku og hyggst verða eitt stærsta fyrirtækið á sviði rafmyntavinnslu á heimsvísu.