Hæstráðendur hjá flugfélögunum EasyJet og Lufthansa segja að sum flugfélög muni ekki lifa af án ríkisaðstoðar ef áhrif kórónuvírusins verða langvarandi. BBC greinir frá.

„Því lengur sem þessi krísa varir, þeim mun líklegra er að framtíð flugsamgangna verði ekki tryggð án ríkisaðstoðar," lét Carsten Spohr, forstjóri Lufthansa, hafa eftir sér í tilkynningu. Félagið ku þegar hafa rætt við þýsk stjórnvöld um hugsanlega aðstoð í formi lánveitingar.

Forstjóri Easy Jet, Johan Lundgren, tekur undir orð þýska kollega síns og varar við gjaldþroti flugfélaga ef ríkisaðstoð berst ekki.

Nokkrum klukkustundum áður en forstjórarnir vöruðu við mögulegum gjaldþrotum flugfélaga, hafði ástralska flugfélagið Qantas orðið enn eitt stóra flugfélagið sem hefur tímabundið lagt niður öll millilanda flug sín vegna veirunnar.

Þá eru stjórnvöld í Indlandi sögð vera að undirbúa björgunaraðgerðir sem miða að því að styðja indversk flugfélög. Undanfarna daga og vikur hafa flugfélög víða um heim neyðst til að leggja niður flug vegna þess hruns í eftirspurn sem kórónuveiran hefur valdið.