Hannes Frímann Hrólfsson, forstjóri Virðingar, segir að það lækkun hlutabréfarvísitölunnar megi fyrst og fremst rekja til lækkunar hlutabréfaverðs tveggja stærstu félaganna í Kauphöllinni. Hann á von á því að erlendir fjárfestar muni líta til Íslands og þá ekki síst til fyrirtækja sem byggja á hugviti.

„Það verður ekki hjá því litið að síðasta ár kom mjög vel út hjá mörgum öðrum félögum, einkum félögum sem starfa á innanlandsmarkaði og eru kannski ekki jafn háð tekjum erlendis frá," segir Hannes Frímann um þróunina í Kauphöllinni. „Krónan styrkist mikið á síðasta ári, sem er kannski þess valdandi að þau fyrirtæki sem eru helst með tekjur í erlendri mynt áttu ekki eins auðvelt uppdráttar. Einnig má nefna tvennt annað sem einkenndi árið 2016. Annars vegar fara lífeyrissjóðirnir að lána mjög mikið af sjóðsfélagalánum, sem í raun dregur úr fjárfestingargetu þeirra annars staðar. Hins vegar er verið að aflétta höftum þannig mikil aukning er á erlendri fjárfestingu.“

Spurður hvort hann telji að erlendir fjárfestar muni í auknum mæli líta til Íslands fyrir fjárfestingar svarar Hannes: „Ef við skoðum árin frá 2008 til dagsins í dag og berum saman við árin fyrir hrun er ljóst að fjárfesting erlendra aðila á Íslandi hefur verið tiltölulega mikil síðastliðin ár. Mörg íslensk fyrirtæki hafa verið seld til erlendra aðila eftir hrun, t.d. Íslensk Erfðagreining, Actavis, Össur, Húsasmiðjan, Betware, Marorka auk ýmissa annarra fyrirtækja.

Ég held það verði áframhald á áhuga erlendra fjárfesta, ekki síst á fyrirtækjum sem byggja mikið á hugviti. Seinni árin hefur þekking aðila á Íslandi aukist gríðarlega og það má að einhverju leyti, eins kaldhæðið og það hljómar, þakka hruninu fyrir það að Ísland fór á kortið erlendis. En fyrst og fremst er það aukinn straumur ferðamanna og erlend umfjöllun um Ísland sem veldur því að nær allir þekkja orðið landið.

Þegar erlendir fjárfestar koma hingað og rýna í stöðu hagkerfisins er það yfirleitt svo að þeir eiga ekki orð yfir því hversu sterk staðan er í samanburði við erlend hagkerfi á sama tíma.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .