Ekki er enn fallinn dómur í neinu þeirra ellefu prófmála sem samráðshópur fulltrúa fjármálastofnana, Samtaka fjármálafyrirtækja, umboðsmanns skuldara, Neytendastofu og talsmanns neytenda völdu síðasta vor sem áttu að skera úr um álitaefni um endurútreikning gengislána. Fjallað er um málið í Morgunblaðinu.

Stóru bankarnir þrír létu sex mál falla niður eftir dóm í hinu svokallaða Borgarbyggðarmáli sem féll síðasta haust en hann skýrði ýmis álitaefni sem vöknuðu í kjölfar vaxtadóms Hæstaréttar frá því í febrúar 2012.

Engum var falið að hafa yfirsýn í öllum málunum en að sögn Svanborgar Sigmarsdóttur, upplýsingafulltrúa embættis umboðsmanns skuldara, sneri samkomulagið frá síðasta vori aðeins að því að koma málunum af stað. „Það var alltaf ljóst að þegar búið væri að greina ágreiningsefnin og velja dómsmálin þá væri samstarfinu lokið. Það er engin yfirstjórn yfir prófmálunum,“ er haft eftir Svanborgu í Morgunblaðinu.