Fjölmörg fyrirtæki bíða þess nú að fá úr því skorið hvort þau þurfa að greiða endurálagningu vegna öfugs samruna. Hluti þeirra hefur farið með málið fyrir yfirskattanefnd og beðið er eftir úrskurði. Icelandair Group fékk 1,3 milljarða í endurálagningu vegna öfugs samruna í desember 2013 og fór málið fyrir yfirskattanefnd í byrjun sumars. Ölgerðin fékk endurálagningu upp á einn milljarð og Skipti, móðurfélag Símans, fékk endurálagningu upp á 2,5 milljarða.

Eina félagið sem hefur farið með mál sitt fyrir dómstóla er Toyota á Íslandi sem fékk endurálagningu upp á 93 milljónir en ríkið var sýknað í málinu í febrúar síðastliðnum. Nú hafa stjórnendur Toyota á Íslandi ákveðið að höfða mál gegn ráðgjöfum sínum hjá Deloitte. Annað mál er í sama farvegi gegn KPMG.

Fjölmörg fyrirtæki eru í sömu sporum en í marsmánuði kom fram í gögnum frá Ríkisskattstjóra að endurálagður tekjuskattur árin 2008 til 2013 nam 4 milljörðum króna. Hjá Skiptum voru gjaldfærðir 2,5 milljarðar í rekstrarreikningi 2013 en sú upphæð gekk á yfirfæranlegt tap félagsins. Gera má því ráð fyrir að tölur Ríkisskattstjóra séu lægri þar sem fyrirtæki hafa í sumum tilfellum átt uppsafnað tap frá fyrri árum.