Formaður Félags fasteignasala segir að mikill áhugi hafi verið meðal kaupenda fyrstu fasteignar á að nýta sér hlutdeildarlán, sem er nýtt úrræði stjórnvalda ætlað fyrstu kaupendum. Næstu mánuði virðist staðan hins vegar vera sú að eftirspurnin eftir íbúðum verði meiri en framboðið.

Lög um hlutdeildarlán voru samþykkt á þingi síðasta haust en þau eru í raun kúlulán til fyrstu kaupenda. Eigið fé kaupanda þarf aðeins að nema fimm prósentum af verðmæti íbúðar en ríkið brúar mismuninn á móti láni lánastofnunar. Að ákveðnum skilyrðum er lánið vaxtalaust og endurgreiðist með eingreiðslu við sölu íbúðar. Hafi íbúðin hækkað þá græðir ríkið en tapar ella.

„Það vantar það ekki að fólk hefur verið mjög áhugasamt um þetta og fjöldinn allur spurt hvort það geti nýtt sér úrræðið,“ segir Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala.

Fyrstu drög reglugerðar um úthlutun lánanna gáfu ekki tilefni til bjartsýni en þau voru ansi þröng. Til að mynda voru eignir sem uppfylltu skilyrðin, staðsettar á höfuðborgarsvæðinu, teljandi á fingrum annarrar handar. Fyrst um sinn var slakað nokkuð á skilyrðunum og hleypti það eilitlu lífi í markaðinn.

„Útvíkkunin gerði það að verkum að verkefni, sem áður féllu utan skilyrðanna, voru allt í einu komin á fullt. Það reyndist vera haugur af íbúðum sem féll undir skilyrðin eftir að þeim var breytt tímabundið,“ segir Kjartan.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum , fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .