*

þriðjudagur, 19. október 2021
Innlent 29. ágúst 2014 13:35

Mörg þúsund tölvur á Íslandi grafa eftir Bitcoin

Bitcoin námavinnsla fer öll fram í sýndarheimum. Hún veltir gríðarlegum fjármunum.

Bjarni Ólafsson
european pressphoto agency

Bitcoin námavinnsla hér á landi er nú orðin svo umfangsmikil að 10 megavött hið minnsta þarf til að drífa áfram þær tölvur sem notaðar eru til verksins. Þúsundir öflugra tölva eru notaðar til verksins og eru stærstu upplýsingatæknifyrirtæki landsins að þjónusta fjölmarga „gullgrafara“. Til að setja þessa raforkunotkun í samhengi má nefna að virkjunin við Ljósafoss í Soginu er um 16 megavött að stærð.

Nýjar Bitcoin „myntir“ eru búnar til á hverjum degi, árið 2014 eru um 25 nýjar myntir búnar til daglega, en þeim er skipt niður á gullgrafarana eftir reiknigetu þeirra. Því fleiri og öflugri tölvur sem þú ert með í notkun því stærra hlutfall af nýjum myntum kemur í þinn hlut. Í grunninn eru tölvurnar notaðar til að reikna sig í gegnumviðskipti sem eiga sér stað með Bitcoin myntir. Sú tölva sem klárar hvern útreikning fyrst fær smávegis umsýslugjald í sinn hlut, en þessi gjöld eru enn bara lítið brot af þeim verðmætum sem tölvurnar skapa eigendum sínum.

Aðstæður á Íslandi þykja ákjósanlegar til að grafa eftir rafmynt og eru ástæðurnar þær sömu og gera Ísland aðlaðandi fyrir rekstur gagnavera. Raforka er ódýr hér á landi og verðið er stöðugt. Þá er kæling ódýrari en víða annars staðar vegna veðurfars hér.

Gunnar Guðjónsson, forstjóri Opinna kerfa, segir að fyrirtækið þjónusti nú þegar fjölda fyrirtækja sem stundi Bitcoin námastarfsemi. „Í það heila hafa þessi fyrirtæki sent okkur eða keypt af okkur 2.500 tölvur, en þær eru allar mismunandi að stærð og gerð. Í daglegu tali er aflið í þeim mælt í U-um. Það er að segja að sumar tölvur eru sex U en aðrar eitt U. Ef þessartölvur væru allar eitt U að stærð væru þetta 12.000 vélar og það er til marks um það hversu öflugar tölvurnar eru. Þessar 12.000 vélar myndu svo troðfylla 300 tölvuskápa.“ Tölvur Opinna kerfa eru allar hýstar í gagnaveri Verne Global á Suðurnesjum og einnig í Thor Datacenter Advania.

Fjallað er ítarlega um málið í blaðinu Tækni, sem kom út með Viðskiptablaðinu í gær. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð. 

Stikkorð: Opin kerfi Bitcoin