„Það hefur átt sér stað talsverð styrking á krónunni undanfarið. Um leið og krónan styrkist þá eykst svigrúm bílaumboða til lækkanna. Flest umboð hafa verið að lækka verð og styrking krónunnar er því að skila sér út í verðlagið,“ segir Jón Trausti Ólafsson, formaður Bílgreinasambandsins. Mörg bílaumboð hafa lækkað verð á bílum sínum að undanförnu. Má þar nefna Öskju, Bílabúð Benna, Heklu, Toyota og BL. Lækkunin nemur yfirleitt á bilinu 4-7%.

Jón Trausti segir aðstæður þó mismunandi og fari það eftir því hvenær bíll er greiddur til framleiðanda hvenær umboðið festir verð á bílnum í krónum.

„Tollurinn sem er svo umtalsverður hluti kaupverðs er greiddur samkvæmt ákveðnu tollgengi, yfirleitt í tengslum við skráningu bifreiðarinnar. Sá hluti kaupverðs sem fer í toll er því yfirleitt greiddur nálægt því gengi sem er til staðar þegar kaupandinn fær bifreiðina afhenta,“ segir hann.

„Lækkanir eru samkvæmt upplýsingum sem ég aflaði mér í dag með því að bera saman verðlista umboðanna, og nemur lækkunum yfirleitt á bilinu 4-7%. Samkeppni á markaðnum er gríðarleg og um leið og krónan styrkist aukast tækifæri til þess að lækka verð og það er markaðurinn greinilega að gera,“ bætir Jón Trausti við.