MIklu hefur verið áorkað efnahagsmálum síðan í hruninu en enn er mikið verk framundan. Auka þarf hagvöxt, draga úr atvinnuleysi, afnema höft án þess að rugga bátnum, draga enn frekar úr skuldum, endurbæta fjármálageirann og ljúka endurskipulagningu skulda. Þetta segir Julie Kozsak, yfirmaður sendinefndar AGS á Íslandi.

Í erindi sínu á ráðstefnu AGS og stjórnvalda í Hörpu sagði hún atvinnuleysi vera hina mannlegu hlið niðursveiflunnar og draga þyrfti úr atvinnuleysi. Þetta er best að gera með hagvexti og til þess þarf að koma fjárfestingu í gang.

Helsta áhættan sem steðjar að íslenska hagkerfinu kemur að utan, m.a. vegna milliríkjaviðskipta. Ísland þarf að flytja út vörur og afla fjár á erlendum mörkuðum. Helsta hættan er að þessir markaðir lokist. Hagvöxtur er orðin merkjanlegur en hann þarf að efla að sögn Kozsak. Þá segir hún aðstæður í heimshagkerfinu skipta máli varðandi afnám hafta.

Tryggja þarf fjármálastöðugleika, lausafjárstöðu banka og markaðsaðgengi ríkisins til þess að hægt sé að taka höft úr gildi. Þá er mikilvægt að marka framtíðarstefnuna á trúverðugan hátt.

Kozsak segir mikilvægt að draga enn frekar úr skuldum hins opinbera en að hennar sögn er það ekki auðvelt verk enda er búið að skera mikið niður og allar auðveldar lausnir hafa verið notaðar. Jafnframt segir hún mikilvægt að umbæta fjármálakerfið til þess að tryggja að sagan endurtaki sig ekki. Bæta þarf regluverkið og endurskipulegga skuldir svo þær séu ekki ónýtar eignir. Það er lífsnauðsynlegt að endurskipulegga skuldir heimila og fyrirtækja.