Óhætt er að segja að hlutabréfaútboð Facebook í síðustu viku hafi ekki beinlýnis uppfyllt allar væntingar fjárfesta. Lokaverð eftir viðskipti á föstudaginn var nánast það sama og bréfin höfðu verið seld á í útboðinu, en venjulega er búist við einhverri hækkun á fyrsta degi eftir útboð.

Fréttir hafa verið að berast af því að fjárfestingarbankinn Morgan Stanley hafi þurft að hlaupa undir bagga á föstudaginn til að koma í veg fyrir að gengið færi undir 38 dala markið með því að kaupa hlutabréf. Morgan Stanley var einn umsjónaraðila útboðsins og var hans hlutverk m.a. að passa upp á að gengi bréfanna lækkaði ekki um of. Samkvæmt frétt Bloomberg er jafnvel útlit fyrir að bankinn komi til með að tapa á útboðinu.

Þykir þetta til marks um að útboðsgengið 38 dalir á hlut hafi verið of hátt, en það var hækkað skömmu fyrir útboðið til að fá fleiri hluthafa í Facebook til að selja sín bréf.

Þá segir CNBC frá því að erfiðlega hafi gengið að fá stóra stofnanafjárfesta til að kaupa bréf í útboðinu og því hafi um 20% af seldum bréfum verið seld til almennings og smærri fjárfesta. Er það með mesta móti, þegar útboðið er borið saman við sambærileg stór hlutabréfaútboð síðustu ára.