Greiningardeild Morgan Stanley mælir með markaðsvogun (e. equal-rating) í bréfum Kaupþings í fyrsta mati sínu á bankanum. Morgan Stanley segist líka vel við talsverða tengingu Kaupþings við heildsölu- og fjármálamarkaði (e.capital markets), sem bankinn segir að muni skapa miklar tekjur á árinu.

Bankinn spáir að arðsemi hluthafa verði 10%, sem sé í takt við meðaltal Kaupþings og því mæli bankinn með markaðsvogun. Morgan Stanley verðmetur (e. target price) Kaupþing á 94 sænskar krónur á hlut, sem gefur til kynna möguleika á 8% hækkun, en það endurspeglar mat bankans á sterkum fjármálamörkuðum á árinu. Af Norrænu bönkunum segist Morgan Stanley fremur mæla með Swedbank.

Morgan Stanley segist trúa því að Kaupþing muni geta haldið áfram að vaxa á öðrum mörkuðum utan Íslands og segir einnig að Kaupþing sé ekki lengur eins háð markaðsaðstæðum á Íslandi, vegna útrásar sinnar á erlenda markaði.