Bandaríski fjárfestingarbankinn Morgan Stanley hagnaðist um 1,7 milljarða dali á öðrum ársfjórðungi. Fjárhæðin jafngildir rúmum 231 milljarði íslenskra króna. BBC News greinir frá uppgjöri bankans.

Afkoma bankans var 100 milljónum dölum lægri en á sama tímabili í fyrra en samt sem áður nokkru betri en markaðsaðilar bjuggust við. Að mestu er hægt að þakka því mikilli tekjuaukningu hjá eignastýringardeild bankans sem dró inn 3,88 milljarða dali í tekjur, eða 4,7% meira en á sama tíma á síðasta ári.

Heildartekjur bankans á tímabilinu námu 9,7 milljörðum dala og hækkuðu um 1,1 milljarð milli ára. Launakostnaður jókst um 200 milljónir dala milli ára og nam í heildina 4,4 milljörðum dala.