Morgan Stanley áætlar að fækka starfsmönnum um 1.200, þ. á m. starfsmönnum sem starfað hafa við gjald­eyrisviðskipti, verðbréfaviðskipti og í viðskiptum með rík­is­skulda­bréf.

Uppsagnirnar eru um 2% af heildarfjölda starfsmanna Morgan Stanley en talið er að kostnaður vegna uppsagnanna, t.d. vegna starfslokasamninga, muni í heild nema um 150 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi ársins. Lang stærsti hluti starfsfólksins sem mun missa vinnuna starfa á starfsstöðvum bankans í London og í New York.

Tekjur Morgan Stanley vegna viðskipta með fjármálaafurðir lækkuðu um 42% milli ára á þriðja ársfjórðungi, en forsvarsmenn fyrirtækisins telja að fjórði ársfjórðungurinn muni koma betur út fyrir bankann.

Bankinn hefur einnig tilkynnt að Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands í ríkisstjórn Gordon Brown, muni taka sæti í stjórn bankans við upphaf næsta árs.