Bandaríski bankinn Morgan Stanley áætlar nú að selja eigin hlutabréf fyrir um 2,2 milljarða dali í þeirri von að geta hraðað endurgreiðslu til bandaríska seðlabankans en bankinn fékk 10 milljarða dala neyðarlán frá seðlabankanum í lok síðasta árs.

Nú þegar hefur verið tilkynnt að bankinn muni selja 45 milljón hluti til kínverska fjárfestingafélagsins China Investment Corporation og 16 milljón hluti til japanska bankans Mitsubishi UFJ Financial Group og í kjölfar sölunnar mun bankinn leita heimilda bandaríska seðlabankans til að greiða inn á lánið frá seðlabankanum.

Alls fengu 19 bankar og fjármálafyrirtæki neyðarlán frá bandaríska seðlabankanum að andvirði tæplega 230 milljarða dala. Í næstu viku mun seðlabankinn tilkynna hvaða bankar fá leyfi til að hefja endurgreiðslur og hvenær, en til þess þurfa bankarnir að uppfylla kröfur um eiginfjárhlutfall.

Í byrjun maí var framkvæmt álagspróf á bönkunum til að sjá hverjir þeirra myndu hugsanlega þurfa aukafjármögnun frá hinu opinbera. Alls „féllu“ 10 bankar á álagsprófinu og þar á meðal var Morgan Stanley en niðurstöður prófsins sýndu að bankinn þurfti endurfjármagna sig um 1,8 milljarða dali að mati yfirvalda.

Bankinn brást skjótt við og seldi eigin hlutabréf að verðmæti 4,6 milljarða og skuldabréf fyrir um 4 milljarða. Nú hyggst bankinn sem fyrr segir afla sér frekari lausafé og hefja endurgreiðslur, þó með samþykki yfirvalda.