Morgan Stanley fjárfestingabankinn hefur gefið út viðvörun vegna stöðu spænskra banka og varað við að fjármagn útlánastofnana sem þola illa lækkun fasteignaverðs geti þurrkast upp.

Þessi aðvörun Morgan Stanley, sem kemur í kjölfar nýrrar skýrslu bankans um stöðu spænska fjármálageirans, fylgir á slæmum hagtölum Spánar sem birst hafa að undanförnu.

Væntingavísitala neytenda á Spáni er í metlægð og er nú 46,3 stig. Atvinnuleysi hefur aukist síðustu mánuði og er nú komið í 10,4%.

Fjármálaráðherra Spánar, Pedro Solbes, segir efnahagsástand landsins mun verra en spáð hafði verið fyrir um. Hann segir að hækkun húsnæðisverðs undanfarin ár hafi verið bóla sem sprakk, en að stjórnvöld hefðu lítið getað gert við því.

„Hvað áttum við að gera? Banna fólki að byggja hús? Það hefði ekki verið réttlátt,“ hefur Telegraph eftir Solbes.

Í frétt Telegraph kemur fram að peningamálastefna Seðlabanka Evrópu henti aðstæðum Spánverja afar illa. Solbes hefur hins vegar verið tregur til að tengja vandræði Spánar við ESB-aðild landsins, en hann sat áður í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og var fjármálaráðherra þess þegar evran var tekin upp.

Velta á fasteignamarkaði Spánar var 34% minni í maí síðastliðnum en í sama mánuði ársins 2007.

Spænskir blaðamenn kalla hrun í fasteignasölu og fasteignaverði á Spáni „Costa del Crash“.