Greiningardeild Morgan Stanley hefur uppfært vogunarráðgjöf sína á Kaupþingi í yfirvigt úr markaðsvogun og um leið hækkað markgengið í 113 sænskar krónur (1.064 íslenskar krónur) úr 94 sænskum krónum (885 íslenskar krónur), frá fyrra verðmati. Markaðsgengi Kaupþings var 972 íslenskar krónur við lok markar í gær, samkvæmt upplýsingum frá M5.

Kaupþing er efstur á blaði (e. top-pick) hjá Morgan Stanley þegar kemur að því að velja hlutabréf á Norðurlöndunum, segir í verðmatinu. Þar segir að Kaupþing muni vaxa á árinu, og er það sérstaklega nefnt fjárfestingarbankasvið og vegna markaðsviðskipta. Ennfremur er sagt að stjórnendur bankans hafi brugðist við áhyggjum markaðsaðila um fjármögnun bankans.

Morgan Stanley telur að Kaupþing komi vel út úr kennitölusamanburði, miðað við aðra banka sem starfa á Norðurlöndunum. V/H hlutfallið, sem sýnir hversu mörg ár hagnaður félags er að skila aftur ígildi markaðsverðs miðað við hagnað síðasta rekstrarárs, er til dæmis 10 hjá Kaupþingi , samanborið við 11,6, sem er meðaltal annarra banka á Norðurlöndum en er 12,1 í Evrópu.