*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Umhverfismál 11. október 2008 07:39

Mörgæsir leita í sólina

Undarlegt ferðalag þúsunda mörgæsa að ströndum Brasilíu

Ritstjórn

Mörg hundruð mörgæsir sem fundust á göngu við strendur Brasilíu hafa verið fluttar nauðungarflutningum aftur til sinna heimkynna í Suður- Atlantshafi. Gripið var til þess ráðs að flytja þær nauðugar með Hercules-herflugvél úr landi sömbunnar og fótboltans aftur til ísveraldarinnar við Suðurskautslandið.

Þessi forsögulega dýrategund leggur á hverju ári á sig langt ferðalag í leit að æti að ströndum Patagóníu syðst í Suður-Ameríku. En það hefur komið sérfræðingum í opna skjöldu hve mörgæsahópurinn var fjölmennur að þessu sinni og hve langa ferð hann átti að baki. Talið er að um 1.000 mörgæsir hafi lagt upp í ferðina til Brasilíu en hluti þeirra hafi drepist á leiðinni. En þær sem komust alla leið syntu yfir 3.000 km leið úr köldu hafinu suður af Patagóníu til Suður-Brasilíu. Fyrr á þessu ári uppgötvaðist að stórir hópar mörgæsa hefðu fundist við strendur Rio de Janeiro í suðurhluta Brasilíu. Nú ber svo við að mörgæsir hafa einnig fundist mun norðar við strendur landsins.

Sumir sérfræðingar tengja ferðir þeirra við ætisleit og að þetta óvenjulega ferðalag bendi til þess að brestur hafi orðið í fæðukeðjunni á heimaslóðum. Hins vegar greinir sérfræðinga á um hvort eingöngu sé ætisskorti um að kenna eða hvort breytingar á sjávarhita og straumum eða aukin mengun af mannavöldum sé orsökin. Sumir fuglanna sem var bjargað voru útataðir í olíu og dæmi voru um að einhverjir þeirra hefðu étið fisktegundir sem ekki eru hluti af þeirra daglegu fæðu.

Brasilíski flugherinn fær það verkefni á hverju ári að flytja mörgæsir aftur á heimaslóðir en flutningarnir hafa aldrei verið jafn viðamiklir og á þessu ári. Mörg hundruð mörgæsir fengu flugfar með Hercules-herflugvélinni í þessari viku og var sleppt í sjóinn við suðurhluta Brasilíu. Þær mörgæsir sem ferðalagið hafði tekið of stóran toll af, fá um stund að baða sig í sólinni á fögrum ströndum Bahiaríkis í Brasilíu.