Kristín Edwald, hæstaréttarlögmaður, segir í viðtali við Morgunblaðið að óvenjulegt sé að ákæra sé orðuð á svo almennan hátt líkt og í máli ríkissaksóknara gegn Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni innanríkisráðherra, í lekamálinu. „Verknaðarlýsingin verður að vera nægilega skýr og ótvíræð þannig að ákærði þurfi ekki að geta í einhverjar eyður til að geta varið sig. Mörgu er ábótavant í ákærunni,“ sagði Kristín í samtali við Morgunblaðið.

Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, tekur í sama streng og telur eðlilegast að krefjast frávísunar málsins svo unnt sé að koma fram með ákæru sem hægt sé að verjast með góðu móti. „Ákæran á auðvitað alltaf að vera þannig að hægt sé að taka afstöðu til sakarefnisins og hvort það sé hægt að færa það undir refsilagaákvæðið sem um ræðir,“ segir Sigurður og bætir við að verknaðarlýsing ákærunnar sé ónákvæm. „Hæstiréttur hefur í gegnum tíðina gert tiltölulega strangar kröfur til ákæruskjala. Þau eiga að geyma skýra lýsingu á hinni refsiverðu háttsemi ásamt því að útskýra hvenær og hvernig brotið var framið. Í þessu ágæta skjali segir ekkert um það. Í því kemur fram að aðstoðarmaður innanríkisráðherra á að hafa brotið gegn þagnarskyldu í starfi en ekkert kemur nánar fram um hvernig brotið á að hafa verið framið.“