„Þetta eru vissulega jákvæðar fréttir, en sökum margra óvissuþátta er ákaflega erfitt að draga af henni ályktanir um grunnrekstur félagsins,“ segir Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur við Hagfræðideild Landsbankans, um bætta afkomuspá Icelandair sem tilkynnt var um seint í gærkvöldi.

„Kjarninn í tilkynningunni er að afkoman það sem af er ári sé 35 milljónum dollara betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Hins vegar er ekki auðvelt að sjá hvers vegna afkoman batnar. Miðað við tilkynningu félagsins frá því í september er tjónið vegna 737-MAX vélanna metið á um 135 milljónir dollara en í tilkynningunni nú er tapið sagt vera á bilinu 100 til 120 milljónir dollara á þessu ári.

Hluti af lækkuninni er vegna þess að kostnaður er að færast til yfir á næsta ár, þó við vitum ekki nákvæmlega hve mikið. Hins vegar vegna óvissu um hvenær þessar vélar koma til baka þá er held ég að ómögulegt sé að henda reiður á það hver sá kostnaður verður. Það þarf að þjálfa töluverðan fjölda af flugmönnum þegar MAX vélarnar koma til baka og því nær sem sá tími er sumrinu verður kostnaðurinn líklega hærri.

Ef förum meðalveginn og gögnum út frá því að kostnaðurinn hafi lækkað um 25 milljónir dollara mætti draga þá ályktun að afkoma í grunnrekstri félagsins hafi batnað um 10 milljónir dollara, og til dæmis vegna þátta eins og hækkunar á flugfargjöldum eða betri sætanýtingu. Það væri vissulega árangur en hins vegar er Icelandair stórt félag og 10 milljónir eru ekki há tala miðað við veltu.

Þá hefur Icelandair tilkynnt að félagið muni fá bætur fá Boeing vegna MAX vélanna án þess að upphæð bótanna hafi verið tilgreind nákvæmlega. Miðað við þær upplýsingar sem ég hef frá félaginu verða þessar bætur færðar inn sem tekjur á þessu ári. Þessi óvissa þýðir sömuleiðis að næsta ómögulegt er að draga ályktanir um grunnrekstur félagsins út frá þessum tilkynningum. En vonandi veitir félagið svar við þessum spurningum þegar uppgjörið verður birt á fimmtudaginn,” segir Sveinn að lokum.