Hluthafar Bear Stearns eru að sögn Reuters fréttastofunnar byrjaðir að spyrja spurninga um hvernig yfirtaka JPMorgan Chase á bankanum fór fram.

Eitt af því sem þeir velta fyrir sér er hvernig tókst að semja, fá samþykki stjórnvalda og hafa til fjármagn til kaupanna á aðeins örfáum klukkutímum, án þess að nokkurt annað tilboð virðist hafa fengist. Einnig vilja þeir fá að vita hvert hlutverk bandaríska Seðlabankans var í samningagerðinni.

Hluthafarnir hafa eins og greint hefur verið frá tapað gríðarlegum fjárhæðum á hruni Bear Stearns, en við yfirtökuna keypti JPMorgan Bear Stearns á genginu 2,41 dollari á hlut, en til samanburðar má nefna að í apríl í fyrra var Bear Stearns metið á 159 dollara á hlut.

Bandaríska þingið hefur einnig óskað eftir upplýsingum um hlutverk Seðlabankans þar í landi í málinu, en seðlabankinn lánaði 30 milljarða dollara til að flýta fyrir kaupunum. Þingið vill fá svör við því hvort stjórnvöld hafi beðið fleiri félög að bjóða í Bear Stearns eða hvort JPMorgan hafi einum verið boðið það.

Það hefur þó enn ekki verið ákveðið af hversu miklum krafti yfirvöld ráðast í rannsókn þessara mála og ljóst að þessum spurningum verður ekki svarað í náinni framtíð, en menn tala um að nokkrar vikur líði áður en öll smáatriði varðandi sölu Bear Stearns komast á hreint.