Kristján Sigurjónsson, ritstjóri Túrista og sérfræðingur í málefnum tengdum íslenskri ferðaþjónustu, segist fagna því að nýtt íslenskt flugfélag sé að hefja rekstur.

Eftir kynningarfund Play á þriðjudaginn sé samt ýmsum spurningum enn ósvarað. „Ég hafði beðið lengi eftir að þeir kynntu áform sín,“ segir Kristján.

„Það er mjög spennandi að hér sé að verða til nýtt flugfélag. Í ljósi hrakfaranna í kringum fyrirætlanir Michelle Ballarin og hins nýja Wow þá batt ég vonir við að forsvarsmenn Play kæmi fram með fullmótuð plön á sínum fyrsta blaðamannafundi, þar sem hulunni yrði ekki einungis svipt af nafni félagsins heldur einnig leiðakerfinu. Átti ég jafnframt von á því að samhliða kynningunni gæti fólk byrjað að bóka flugmiða. Flugrekstrarleyfið er hins vegar ekki klárt og því ekki hægt að opna fyrir bókanir. Ég set því spurningarmerki við tímasetningu fundarins. Af hverju var ekki beðið?“ spyr Kristján.

Grundvallaratriði að útskýra fjármögnina

„Eins og við munum þá átti Wow air erfitt með að fjármagna sig og sömu sögu virðist mega segja um félag Ballarin. Vegna þessa hefði ég talið að það væri algjört grundvallaratriði að útskýra fyrir neytendum með hvaða hætti félagið er fjármagnað en það var ekki gert. Mér fannst sem sagt forsvarsmenn Play ekki nýta tækifærið nægilega vel,“ segir Kristján.

Kristján segir að aðstæður á flugmarkaði séu mjög krefjandi. Fjöldi flugfélaga víðs vegar um heim hafi farið í þrot síðustu misseri. „Norwegian var til að mynda í vikunni að klára sína þriðju hlutafjáraukningu á einu og hálfu ári. Norwegian er stærsta lágfargjaldaflugfélag í flugi á milli Evrópu og Ameríku og hefur leitt þá þróun. Staða félagsins er hins vegar ekki betri en þetta, sem sýnir hversu erfitt verkefni þetta er og krefjandi.“

Kristján segist vonast til þess að stjórnendur Play muni fljótlega upplýsa hverjir standi að baki félaginu. „Þegar miðasala hefst og félagið byrjar að fljúga þá mun maður sjá hvernig flugfélag þetta verður í raun og veru, sem verður mjög spennandi. Ef maður horfir yfir sviðið núna þá er ákveðið svigrúm á markaðnum hér fyrir nýtt flugfélag. Vonandi tekst Play að fylla það skarð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .