Morgunblaðið fær stærstu fjárhæðina, eða 99,9 milljónir króna af 400 milljóna króna ríkisstuðningi sem stjórnvöld hafa boðað til einkarekinna fjölmiðla. Næst stærsta fjárhæðin rennur til Sýnar sem rekur Stöð 2, Bylgjuna og Vísir sem dæmi, fær 91 milljón krónur, en Torg sem rekur Hringbraut og Fréttablaðið fær 64,8 milljónir króna.

Næst á eftir kemur Birtingur útgáfufélag DV, Myllusetur útgáfufélag Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta, og Stundin, með 24 milljónir, 20,2 milljónir og 17,8 milljónir króna. Loks fá Kjarninn og Bændasamtökin sem gefa út Bændablaðið 9,3 milljónir króna hvor um sig. Lægsta fjárhæðin rennur hins vegar til Kópavogsblaðsins, eða tæplega hálf milljón króna.

Fjárhæðin miðast við greiðslu tryggingagjalds á síðasta ári

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögur fjölmiðlanefndar um sérstakan rekstrarstuðning við einkarekna fjölmiðla, til að mæta efnahagsáhrifum heimsfaraldurs kórónaveirunnar. Þess má þó geta að ráðherrann, Lilja Alfreðsdóttir, reifaði hugmyndir um sérstakan ríkisstuðning til handa einkareknum fjölmiðlum áður en heimsfaraldurinn reið yfir án þess að sátt hefði náðst um útfærsluna til framtíðar.

Alþingi samþykkti í vor að verja 400 milljónum króna til verkefnisins en í reglugerð er tilgreint að við ákvörðun um fjárhæð stuðnings verði litið til tryggingagjalds vegna launagreiðslna til blaða- og fréttamanna, myndatökumanna, ljósmyndara, ritstjóra og aðstoðarritstjóra á árinu 2019 vegna miðlunar á fréttum og fréttatengdu efni.

Þá verði tekið mið af beinum verktakagreiðslum til sambærilegra aðila, útgáfutíðni miðilsins og fjölbreytileika. Upplýsingarnar skulu staðfestar af endurskoðanda.

Í reglugerð ráðherra frá 3. júlí 2020 er fjölmiðlanefnd falin umsýsla málsins. Nefndin auglýsti eftir umsóknum 10. júlí sl. og umsóknarfrestur rann út 7. ágúst. Alls bárust 26 umsóknir um sérstakan rekstrarstuðning, þar af 25 frá fjölmiðlaveitum og ein frá félagi sem ekki telst fjölmiðlaveita í skilningi laga um fjölmiðla.

Alls uppfylltu 23 umsóknir frá fjölmiðlaveitum skilyrði reglugerðarinnar og skiptist stuðningsupphæðin á milli þeirra þannig:

  • Árvakur hf.    Morgunblaðið, Mbl.is, K100    99.904.495 krónur
  • Ásprent – Stíll ehf.    Vikublaðið, Vikubladid.is    2.239.059 krónur
  • Birtingur útgáfufélag ehf.    Mannlíf, Mannlif.is    24.017.147 krónur
  • Björt útgáfa ehf.    Hafnfirðingur, Hafnfirdingur.is    852.801 krónur
  • Bændasamtök Íslands    Bændablaðið, Bbl.is, Tímarit Bændablaðsins, Hlaðvarp Bændablaðsins    9.277.877 krónur
  • Eyjasýn ehf.    Eyjafréttir, Eyjafrettir.is    3.091.497 krónur
  • Fröken ehf.    Reykjavík Grapevine, Grapevine.is    7.596.783 krónur
  • Hönnunarhúsið ehf.    Fjarðarfréttir, Fjardarfrettir.is    1.124.341 krónur
  • Kjarninn miðlar ehf.    Kjarninn.is, Hlaðvarp Kjarnans, Vísbending    9.299.482 krónur
  • Kópavogsblaðið slf.    Kópavogsblaðið, Kopavogsbladid.is    466.962 krónur
  • MD Reykjavík ehf.    Iceland Review, Icelandreview.is    5.997.042 krónur
  • Myllusetur ehf.    Fiskifréttir, Fiskifrettir.is, Frjáls verslun, Viðskiptablaðið, Vb.is    20.225.397 krónur
  • N4 ehf    N4, N4 hlaðvarp, N4.is    13.527.946 krónur
  • Prentmet Oddi ehf.    Dagskráin – fréttablað Suðurlands, Dfs.is    1.916.079 krónur
  • Saganet - Útvarp Saga ehf.    Útvarp Saga, Utvarpsaga.is, Utvarpsaga.is hlaðvarp    5.250.398 krónur
  • Skessuhorn ehf    Skessuhorn, Skessuhorn.is    7.326.329 krónur
  • Steinprent ehf.    Bæjarblaðið Jökull    1.683.126 krónur
  • Sýn hf.    Stöð 2, Bylgjan, Vísir.is    91.118.336 krónur
  • Torg ehf.    Fréttablaðið, Frettabladid.is, Hringbraut, Hringbraut.is    64.754.052 krónur
  • Tunnan prentþjónusta ehf.    Hellan héraðsfréttablað, DB-blaðið    1.044.031 krónur
  • Útgáfufélag Austurlands ehf.    Austurglugginn, Austurfrett.is    3.201.564 krónur
  • Útgáfufélagið Stundin ehf.    Stundin, Stundin.is    17.780.267 krónur
  • Víkurfréttir ehf.    Víkurfréttir, Vf.is    7.922.972 krónur