Morgunblaðið fagnar um þessar mundir 100 ára afmæli sínu. Blaðið var stofnað þann 2. nóvember 1913. Afmælinu hefur verið fagnað með margvíslegum hætti.

Haraldur Johannessen, annar ritstjóra blaðsins, segir að það sem standi upp úr sé útgáfa afmælisblaðs sem kom út á afmælisdaginn, auglýsingablað sem kom út í gær og hringferð sem blaðamenn og ljósmyndarar hafa farið um landið.

„Þetta er hundrað daga ferð þar sem við heimsækjum alla þéttbýlisstaði landsins og rúmlega það. Ég held að svoleiðis ferð hafi aldrei verið farin áður. Að það sé farið svona markvisst hringinn og fjallað um það sem er að gerast. Við erum að vekja athygli á því að það er mikið líf og mikill kraftur í fólki um land allt,“ segir Haraldur. Þessu tengt hafa verið haldnar hringborðsumræður þar sem fulltrúar frá hverjum stað halda erindi.

Afmælinu verður svo fagnað með veislu í Hörpu á morgun. „Þetta er bara svona samkoma þar sem menn hittast og skrafa með léttum veitingum, tónlist og lítilsháttar ræðuhöldum. Það er svo sem allt mjög hefðbundið,“ segir Haraldur. Í veislunni munu starfsmenn blaðsins og velunnarar þess hittast.

Það er gaman að geta þess framhjáhlaupi að Morgunblaðið er elsta dagblað á Íslandi en þó ekki elsta blaðið. Bjarmi, tímarit um kristna trú, er sex árum eldra. Það var fyrst gefið út árið 1907 og hefur komið út síðan þá.