Fréttablaðið fer undir Árvakur samkvæmt drögum að samkomulagi eigenda fjölmiðlafyrirtækjanna 365 og Árvakurs.

Eigendur 365 munu í staðinn fá hlut í Árvakri. Þegar þetta er ritað er óvíst hve stór sá hlutur verður. Talað hefur verið um allt að fjörutíu prósenta hlut. Tíðindi dagsins gætu þó sett strik í reikninginn.

Búast má við því að gengið verði frá samkomulagi fljótlega.

Þreifingar og viðræður um sameiningu eða samstarf hefur staðið yfir í nokkurn tíma milli forsvarsmanna 365 annars vegar sem eiga Fréttablaðið, Stöð 2, Visir.is og Bylgjuna og Árvakurs hins vegar sem á Morgunblaðið, 24 stundir, mbl.is og Landsprent.

Báðir aðilar sjá augljósan ávinning af því að sameina dreifingu prentmiðlanna og prentun þeirra.

Þrengingar á fjármálamörkuðum og samdráttur í auglýsingasölu hafa ýtt undir sameiningarviðræður. Samrunaáform hafa helst strandað á ákvörðun um það hve stór hlutur eigenda 365 verði í Árvakri eftir að Fréttablaðið fer þar undir.

Þá er horft til þess hvernig samkeppnisyfirvöld muni líta sameininguna.

______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaði morgundagsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum frá kl. 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .