Boris Johnsson talsmaður þeirra sem vilja að Bretland yfirgefi Evrópusambandið segir að morgundagurinn gæti orðið sjálfstæðisdagur Bretlands. Á morgun, fimmtudaginn 23. júní kjósa Bretar um hvort þeir vilji halda áfram að vera í sambandinu eða yfirgefa það.

Naumur meirihluti fyrir útgöngu

Skoðanakannanir sýna að mjög mjótt er á mununum, en könnun sem Financial Times gerði sýnir nauman meirihluta þeirra sem vilja ganga út, eða 45% á móti 44% aðildarsinna. David Cameron forsætisráðherra Bretlands og flokksbróðir Boris Johnsson berst fyrir áframhaldandi veru landsins í sambandinu og segir við þjóðina: „Bretar ekki hætta“.

Viðskipti á mörkuðum snemma í morgun sýndu eilitlar hækkanir á FTSE 100 vísitölunnar sem nam 0,2% og hækkaði jafnframt breska pundið um 0,3% gagnvart Bandaríkadal, þannig að það heldur í þær hækkanir sem nýlega urðu eftir að stuðningur við áframhaldandi aðild jókst.

Veltur allt á kjörsókn

Væntingar þeirra sem vilja áframhaldandi aðild eru að þeir sem séu hlutlausir séu líklegri til að kjósa óbreytt ástand, en einungis ef þeir mæta á kjörstað. Þannig muni kosningarnar mikið velta á því hve vel mismunandi hópar mæta á kjörstað en eldri kjósendur eru líklegri til að vilja ganga úr sambandinu.

Cameron segir að ef Bretar kjósi að ganga út sé það óafturkræf aðgerð. „Þú getur ekki hoppað út úr flugvél og svo klifrað aftur inní flugstjórnarklefann,“ sagði hann í morgun. Honum tókst ekki að fá mikilvægar tilslakanir frá Evrópusambandinu um undanþágur frá sameiginlegri stefnu þess í viðræðum.

Sama hvernig fer í kosningunum á morgun er líklegt að almennar áhyggjur vegna aukinnar komu flóttamanna og vaxandi efasemda um sambandið um alla álfuna tryggi að málefnið er ekki að fara að hverfa í bráð.