Í dag kl 10.30 fer sneisafull Boeing 757 þota Icelandair í loftið á Keflavíkurflugvelli í áætlunarflugi til New York í Bandaríkjunum. Flugið í dag markar upphaf morgunflugs frá Íslandi vestur um haf, sem er söguleg nýbreytni í millilandaflugi til og frá Íslandi, segir í frétt frá flugfélaginu.

Þar segir að tímasetning þessa flugs býður upp á alveg nýja ferðamöguleika og tengingar fyrir ferðamenn, bæði þá Íslendinga sem eiga erindi vestur um haf og þá sem eiga erindi hingað eða milli Bandaríkjanna og Evrópulanda. Bókanir í þessi morgunflug eru mjög góðar og uppselt er í fyrsta flugið.

"Eins og flestir þekkja þá byggir leiðakerfið okkar á ákveðinni 24 klukkustunda hringrás þar sem flugvélar okkar fara flestar til Evrópu að morgni, koma til baka síðdegis og fara þá vestur um haf og koma þaðan snemma morguns til Íslands aftur - áður en hringrásin hefst á ný. Með fluginu sem hefst í dag bjóðum við upp á nýja tengimöguleika, nýjan "tengibanka" á Keflavíkurflugvelli," Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair í fréttinni.

"Við erum í raun í fyrsta sinn að bjóða upp á hina leiðina, þ.e. að fara frá Evrópu til Íslands að morgni, halda strax áfram til Bandaríkjanna að morgni, koma frá Bandaríkjunum um miðnætti og halda áfram að næturlagi til Evrópu. Þetta er spennandi nýjung fyrir viðskiptavini okkar hér heima, í Evrópu og í Bandaríkjunum", segir hann. Í sumar verður boðið upp á þessi morgunflug frá Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi til Íslands og frá Íslandi til New York og Boston.

"Við fögnum sjötíu ára afmæli félagins á árinu og höldum upp á það með því að bjóða viðskiptavinum okkar upp á flugáætlun sem er sú langstærsta í sögu félagsins. Við ætlum að þétta flug okkar milli Íslands og Norðurlandanna, sem er okkar stærsti markaður, og opna í leiðinni alveg nýja möguleika á flugi okkar milli Norður-Ameríku og Evrópu", segir Jón Karl. Samkvæmt áætlun félagins verður boðið upp á um 160 ferðir á viku hverri frá Íslandi, sem er það langmesta í sögu félagins.

"Með þessu erum við að leggja enn frekari grunn að fjölgun ferðamanna til Íslands. Þetta eykur að sjálfsögðu ferðavalkosti Íslendinga, en við erum þó einkum að hugsa um erlenda markaði, þaðan sem um 70% af tekjum okkar koma", segir Jón Karl.