Lítill munur er á þeirri efnahagsspá sem hagdeild Alþýðusambands Íslands (ASÍ) birti í gær og þeim hagspám sem birtar voru í upphafi þessa mánaðar af fjármálaráðuneytinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS).

Um þetta fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en spár þessara aðila hljóða upp á um 8,1-8,5% samdrátt landsframleiðslu í ár og um 1,9-2,9% samdrátt til viðbótar á næsta ári.

Í spánum er reiknað með 8,2-8,6% atvinnuleysi í ár og að það nái hámarki í 10,0-10,6% á næsta ári. Þá er í spánum reiknað með því að hratt dragi úr verðbólgu á næstunni og að hún verði 3,1-5,0% á næsta ári. Þar felst munurinn aðallega í forsendum um hvort gengi krónunnar haldist stöðugt eða styrkist á næstu misserum en enginn þessara aðila er að spá því að krónan veikist frekar.

Greining Íslandsbanka segir að breytingarnar í hagspám allra þessara aðila undanfarið hafa verið á þann veg að nú er gert ráð fyrir minni samdrætti landsframleiðslu í ár en áður var áætlað. Hagþróun það sem af er ári sýnir að þær spár sem þessir aðilar og fleiri birtu fyrst eftir hrun bankanna í fyrra voru of svartsýnar hvað efnahagsþróunina í ár varðar.

Á móti séu þessir aðilar nú að  reikna með meiri samdrætti á næsta ári en í fyrri spám. Þannig er búist við að nokkuð sé enn í botn kreppunnar.

Sjá nánar í Morgunkorni.