Greining Íslandsbanka á von á mikilli eftirspurn í útboði ríkisvíxla sem fram fer á föstudaginn næstkomandi, þrátt fyrir að aðeins séu ríkisvíxlar að fjárhæð 8,1 milljarði króna á gjalddaga í mánuðinum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en í útboðinu verða í boði víxlar með gjalddaga 15. apríl 2010 og ræður hæsta samþykkta ávöxtunarkrafa kröfunni í öllum teknum tilboðum líkt og verið hefur undanfarna mánuði. Þá kemur fram að útboðskrafan hefur farið lækkandi síðustu mánuði og var hún 8% í nóvember.

Í nóvember voru 40 milljarðar króna af ríkisvíxlum á gjalddaga, og þar af höfðu erlendir aðilar upphaflega keypt ríflega 32 milljarða af þeim víxlum. Hins vegar voru aðeins seldir víxlar að fjárhæð 20 milljarðar í nóvembermánuði þrátt fyrir að heildarspurn eftir þeim væri ríflega þreföld sú upphæð.

„Því er ljóst að útlendingarnir gátu ekki framlengt töluverðum hluta víxlastöðu sinnar í síðasta mánuði,“ segir í Morgunkorni.

„Erlendir fjárfestar eiga einnig bróðurpartinn af  ríkisbréfaflokknum RIKB 10 1210 og munu fá upp undir 7 mö.kr. í vaxtagreiðslur af þeim bréfum á morgun sem þeir gætu viljað endurfjárfesta að einhverjum hluta hér á landi. Þessir aðilar vilja hins vegar halda sig við ríkisverðbréf með sem stystan binditíma og hafa því væntanlega hugsað sér að reyna að koma þeim fjármunum sem út af stóðu í nóvember í ríkisvíxla nú. Auk þess virðast innlendir aðilar nokkuð áhugasamir um kaup á ríkispappírum með stuttan binditíma þessa dagana, og þannig hefur krafa stystu ríkisbréfaflokkanna lækkað um 15-57 punkta á markaði það sem af er desembermánuði.

Sjá nánar í Morgunkorni.