Þau heimili sem ekki sögðu sig frá greiðslujöfnun verðtryggðra lána munu greiða ríflega 14% lægri upphæð af lánum sínum í janúar en þeir sem héldu sig við að greiða samkvæmt þróun vísitölu neysluverðs (VNV).

Frá þessu segir í Morgunkorni Glitnis en Greining Glitnis segir mismunurinn hins vegar bætast við lán þeirra fyrrnefndu, og þegar frá líður muni greiðslubyrði þeirra væntanlega aukast hraðar en hinna sem ekki eru með lán sín í greiðslujöfnun.

Greiðslujöfnunarvísitalan fyrir janúar, sem Hagstofan birti í vikunni, er 96,7 stig og hækkar vísitalan um eitt stig á milli mánaða. Vísitalan er reiknuð sem margfeldi af launavísitölu og atvinnustigi, og er stuðst við tölur nóvembermánaðar við útreikning á vísitölunni fyrir janúar. Ástæða hækkunarinnar nú er sú að 1,5% hækkun launavísitölu í nóvember vó þyngra en 0,4 prósentustiga lækkun atvinnustigs.

Meirihluti verðtryggðra lána í greiðslujöfnun

Greining Glitnis áætlar að verðtryggðar íbúðaskuldir heimila nemi nú alls u.þ.b. 1.250 milljörðum króna og meirihluta þessara upphæðar sé væntanlega lán í greiðslujöfnun.

„Líkur eru á að bilið milli greiðslubyrði þeirra sem eru í greiðslujöfnun og hinna sem enn greiða samkvæmt upprunalegum skilmálum aukist enn á næsta ári,“ segir í Morgunkorni.

„Atvinnuleysi á væntanlega enn eftir að ná hámarki og hækkun launavísitölu verður trúlega mjög hófleg næsta kastið. Því mun greiðslujöfnunarvísitala líklega hækka lítið yfir næsta ár. Vísitala neysluverðs mun hins vegar hækka um ríflega 2% á fyrsta fjórðungi næsta árs að mati okkar, og verður hækkun óbeinna skatta helsta orsök þessa. Yfir næsta ár spáum við 3,8% hækkun VNV.“

Þá segir Greining Glitnis að þegar íslenskt hagkerfi tekur að hjarna við muni þessi þróun hins vegar snúast við en þá mun kaupmáttaraukning launa ásamt þverrandi atvinnuleysi leiða til talsvert hraðari hækkunar á greiðslujöfnunarvísitölu en vísitölu neysluverðs.

„Allmörg ár eru hins vegar þar til greiðslubyrði af lánum í greiðslujöfnun verður orðin jafnmikil og af verðtryggðum lánum, en á þeim tíma mun mismunurinn renna inn á jöfnunarreikning sem í raun felur í sér að höfuðstóll lána í greiðslujöfnun hækkar hraðar en sem nemur verðtryggingu lánanna á þessu tímabili,“ segir í Morgunkorni.

Sjá nánar í Morgunkorni Íslandsbanka.