Fjárfestar á skuldabréfamarkaði hafa sýnt íbúðabréfum meiri áhuga en ríkisbréfum það sem af er árinu. Frá áramótum hefur krafa fyrrnefndu bréfanna lækkað um 11-34 punkta á meðan krafa þeirra síðarnefndu hefur hækkað um 5-18 punkta.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka en þar segir að svo virðist sem breyttar horfur um hlutfallslega útgáfu óverðtryggðra og verðtryggðra skuldabréfa með ríkisábyrgð á yfirstandandi ári ekki hafa breytt miklu þar um. Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hafi því aukist nokkuð frá janúarbyrjun og er það nú 4,9% til þriggja ára en 4,3% til sjö ára.

Íbúðalánasjóður og Lánamál ríkisins gáfu nýlega út áætlanir fyrir útgáfu skuldabréfa á yfirstandandi ári. Greining Íslandsbanka segir að af þeim megi ráð að útgáfa verðtryggðra skuldabréfa með ríkisábyrgð verði á bilinu 84-92 ma.kr., þar af 50 ma.kr. vegna uppbyggingar á nýjum verðtryggðum skuldabréfaflokki ríkissjóðs en 34-42 ma.kr. vegna útgáfu íbúðabréfa.

„Raunar kann framboð fyrrnefndu bréfanna á markaði að verða öllu minna þar sem hluti þeirra verður boðinn í skiptum fyrir útistandandi spariskírteini, sem nú nema 20 mö.kr. að markaðsvirði,“ segir í Morgunkorni.

„Áætluð útgáfa óverðtryggðra ríkisbréfa mun svo verða 120 ma.kr. Þessar áætlanir breyta talsvert myndinni hvað það varðar að nettóútgáfa óverðtryggðra bréfa, þ.e. útgáfa umfram afborganir, verður neikvæð á árinu en nettóútgáfa verðtryggðra bréfa hins vegar líklega jákvæð öfugt við það sem margir bjuggust við.“

Þá segir greiningardeildin að tvær ástæður megi helst tína til sem líklega áhrifavalda þess hversu lítið ofangreindar fréttir hafa slegið á verðbólguálagið á markaði. Annars vegar sé í pípunum talsverð skammtímahækkun vísitölu neysluverðs. Hins vegar hafa væntingar um vaxtalækkun Seðlabankans í janúarlok hjaðnað vegna óvissu um áframhald efnahagsáætlunar AGS og stjórnvalda, og hefur það haft neikvæð áhrif á verð ríkisbréfanna.

Sjá nánar í Morgunkorni.