Forvitnilegt verður að sjá hvort áhugi á RIKB11 reynist meiri á föstudaginn en raunin var fyrir tveimur vikum síðan. Þá var öllum tilboðum í flokkinn, alls 4,3 milljörðum króna, hafnað en á sama tíma var tilboðum fyrir 8,3 milljarða króna tekið í RIKB25-flokkinn.

Um þetta er fjallað í Morgunkorni Íslandsbanka en annað ríkisbréfaútboð ársins fer fram hjá Lánamálum ríkisins næstkomandi föstudag. Í boði verða tveir nýjustu ríkisbréfaflokkarnir, RIKB11 og RIKB25.

Eins og í undanförnum útboðum ræður lægsta samþykkta verð, og þar með hæsta ávöxtunarkrafa, söluverði í útboðinu. Útboðið nú er í samræmi við nýlega útgáfuáætlun Lánamála, þar sem gert er ráð fyrir tveimur ríkisbréfaútboðum í mánuði hverjum.

Greining Íslandsbanka segir RIKB11 í raun örverpið í hópi ríkisbréfa, þar sem stærð flokksins er aðeins u.þ.b. 9 milljarðar króna að lánsbréfum frátöldum. RIKB25 hefur hins vegar dafnað vel frá því hann leit dagsins ljós í fyrrasumar, og er hann nú í kring um 65 milljarðar króna að stærð auk lánsbréfa.

„Eins og við höfum áður fjallað um endurspeglar þátttaka í útboðum á þessum tveimur flokkum áhuga tveggja helstu gerða fjárfesta á ríkisbréfum,“ segir í Morgunkorni.

„RIKB25-flokkurinn er þannig að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða og annarra innlendra stofnanafjárfesta, á meðan útlendingar eiga bróðurpartinn af RIKB11-bréfum. Niðurstaðan á föstudag gefur að mati okkar vísbendingu um hvort áhugi erlendra fjárfesta á RIKB11 er eitthvað að glæðast að nýju, eða hvort þeir muni einbeita sér að útboði ríkisvíxla sem fram fer á fimmtudaginn eftir rúma viku.“

Krafa ríkisbréfa hefur lækkað

Þá kemur fram að kröfuþróun flokkanna tveggja undanfarið hafi lagt nokkuð hagfelldan grunn fyrir útboðið á föstudag. Í kjölfar óvæntrar lækkunar vísitölu neysluverðs og vaxtalækkunar Seðlabankans í kjölfarið í síðustu viku lækkaði krafa ríkisbréfa talsvert.

Þannig var kaupkrafa RIKB11-flokksins 7,34% kl. 10 í morgun sem jafngildir 24 punkta lækkun frá upphafi síðustu viku. Krafa RIKB25 hefur á sama tíma lækkað um 20 punkta og er nú 7,87%. Krafa flestra ríkisbréfaflokka snarhækkaði í kjölfar synjunar forsetans á undirskrift Icesave-laganna, en hefur lækkað verulega síðan og er nú á svipuðum slóðum og um miðjan desembermánuð í fyrra.