Þrátt fyrir að vart sé að vænta holskeflu af gjaldeyrisinnflæði í kjölfar fyrsta skrefs Seðlabankans í afnámi gjaldeyrishafta er aðgerðin þó mikilvæg í ljósi þess að höftin hafa reynst mun langvinnari en rætt var um þegar þau voru sett.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Íslandsbanka í morgun en sem kunnugt er tilkynnti Seðlabankinn á laugardagsmorgun um afnám hafta af innstreymi erlends gjaldeyris til nýfjárfestinga og útstreymi því tengdu í framtíðinni. Þeir erlendu fjárfestar sem kaupa vilja íslenskar eignir héðan í frá geta þar með tekið til sín jafnt fjármagnstekjur af eigninni sem og höfuðstólinn ef þeir kjósa að selja hana að nýju. Nýfjárfestinguna þarf að skrá hjá Seðlabankanum en hún verður hins vegar framseljanleg, vilji upprunalegur fjárfestir selja hana og gefa eftir réttinn til að kaupa gjaldeyri fyrir krónueign sína.

„Afnám gjaldeyrishaftanna er nauðsynleg forsenda þess að samtvinna fjármálakerfi landsins við alþjóðlega markaði að nýju,“ segir í Morgunkorni en jafnframt kemur fram að á sama tíma hefur þó enn verið hert á ýmsum öðrum liðum gjaldeyrishaftanna.

Til að mynda sé nú óheimilt að flytja fjármuni milli landa vegna fasteignaviðskipta erlendis nema um búferlaflutninga sé að ræða, og sama gildir um fjármagnshreyfingar vegna fjárfestingar í hrávöru, farartækjum og vinnuvélum sem ekki eru eðlilegur þáttur í rekstri viðkomandi aðila.

Segir Seðlabankinn í fréttatilkynningu sinni að tilgangur þessa sé að draga úr misræmi og loka glufum sem notaðar hafa verið til að fara í kring um gjaldeyrishöftin. Einnig boðar bankinn hert eftirlit með höftunum til að koma í veg fyrir að sniðganga við þau aukist þótt möguleikum til gjaldeyrisviðskipta fari fjölgandi.

Greining Íslandsbanka segir að lítil viðbrögð hafa verið á gjaldeyrismarkaði við tíðindum helgarinnar enn sem komið er. Raunar hafi engin viðskipti átt sér stað á millibankamarkaði með gjaldeyri það sem af er degi.

„Við teljum líklegast að bein áhrif þessa fyrsta skrefs í afnámi hafta á gengi krónu verði takmörkuð næsta kastið,“ segir í Morgunkorni.

„Seðlabankastjóri hefur látið í veðri vaka að ef innflæði reynist verulegt muni bankinn nota tækifærið til að efla gjaldeyrisforða sinn. Í ljósi þess hversu krónan hefur átt í vök að verjast lungann úr árinu mun bankinn þó væntanlega leyfa öllu innflæði að fara í gegn um gjaldeyrismarkað, enda er hann orðinn býsna langeygur eftir styrkingu krónunnar.“

Þá segir Greining Íslandsbanka jafnframt að næstu skref afnáms gjaldeyrishaftanna, sem felast í skiptingu eldri krónueigna í þolinmótt og óþolinmótt fjármagn, og stigminnkandi höft á útflæði fyrrnefndu eignanna, muni tæpast eiga sér stað fyrr en á nýju ári.