Þrátt fyrir söluþrýsting í lok gærdags heppnaðist útboð Seðlabankans á þeim íbúða- og ríkisbréfum sem lögð höfðu verið inn í bankann til tryggingar verðbréfalánum fyrir hrun og ríkissjóður yfirtók í kjölfarið en útboðið fór fram í morgun.

Fjallað er um málið í Morgunkorni Íslandsbanka en í boði voru 4,3 milljarðar króna í HFF24, 3,2 milljarðar króna í HFF34, 3,8 milljarðar króna í RIKB13 og 3,12 milljarðar króna í RIKB19.

Mestur reyndist áhuginn á HFF34. Tilboð í flokkinn voru 12,2 milljarðar króna í heildina og voru allir 3,2 milljarðarnir seldir á 4,03% ávöxtunarkröfu.

Þá bárust tilboð að fjárhæð 2,8 milljarðar króna í HFF24-bréfin, og var tilboðum fyrir tæplega 1,8 milljarða tekið á 4,11% ávöxtunarkröfu.

Í RIKB13 bárust tilboð að fjárhæð tæplega 3,9 milljarða króna en alls voru seld bréf í þeim flokki fyrir 1,7 milljarð á 7,3% ávöxtunarkröfu.

Loks bárust tilboð að fjárhæð tæplega 4,2 milljarðar króna í RIKB19-flokkinn, en tilboðum var tekið fyrir nærri 2,6 milljarða á 8% ávöxtunarkröfu.

Í Morgunkorni kemur fram að eftir útboð morgunsins standa eftir í eigu ríkissjóðs HFF24-bréf fyrir 2,5 milljarða króna að nafnverði, RIKB13-bréf fyrir 2,1 milljarð að nafnverði og RIKB19-bréf fyrir u.þ.b. 550 milljónir króna að nafnverði.

„Framboð ríkistryggðra skuldabréfa úr þessari áttinni er því að langmestu leyti komið fram og má leiða að því líkur að Seðlabankinn muni leitast við að sæta lagi þegar markaðsaðstæður eru með hagstæðasta móti til að losa ríkissjóð við það sem eftir stendur af þessum bréfum,“ segir í Morgunkorni.