Samtök atvinnulífsins og Samtök fjármálafyrirtækja efna til morgunverðarfundar um viðurlög við efnahagsbrotum, í fyrramáli, 13. febrúar kl. 8:30-10:00. Á fundinum verður rætt um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum og frumvarp til laga um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Fulltrúar viðskiptaráðuneytis munu kynna fyrirhugaðar lagabreytingar og fulltrúar atvinnulífsins munu lýsa viðhorfum sínum til þeirra.

Í frétt SA er bent á að Alþingi hefur nú til meðferðar frumvörp til laga um breytingu á samkeppnislögum annars vegar og um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði hins vegar. Í frumvörpunum er gengið lengra en í nágrannalöndum Íslands og lagðar til strangari refsiheimildir en þar tíðkast gagnvart einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja segir í frétt SA.

Frumvörpin hafa verið gagnrýnd harðlega og í nýjasta fréttabréfi SA fjallar Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, um frumvarp um breytingar á samkeppnislögum. Þar segir hann að alvarlegir meinbugir séu á fyrirhuguðum breytingum og þær myndu hafa verulega skaðleg áhrif á atvinnulífið yrðu þær að lögum:

?Greinilegt er að við samningu frumvarpsins hafa mjög einlit sjónarmið fengið að ráða þar sem einblínt hefur verið á meint vandamál sem tengjast einstökum málum sem komið hafa til kasta samkeppnisyfirvalda. Það er mjög kostnaðarsamt fyrir samfélagið þegar eftirlitsaðilar og önnur stjórnvöld vilja að löggjöfin og atvinnulífið séu sniðin fyrir þá sjálfa í stað þess að atvinnulífið og þarfir þess séu útgangspunkturinn. Þess vegna er hætt við að slík löggjöf sé annað hvort marklaus eða framfylgt af geðþótta og handahófi og brjóti gegn eðlilegum jafnræðissjónarmiðum.?