„Ég hata, hata, hata að tapa" skrifaði Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, á Facebook síðuna sína í morgun eða eftir að ljóst var að útgáfu blaðsins yrði hætt. Það hefur nú verið lýst gjaldþrota. Morten Nissen Nielsen, framkvæmdastjóri Nyhedsavisen, sagði við danska fjölmiðla í dag að blaðið hefði þurft meiri tíma til að sanna sig. Fjármagn hefði á hinn bóginn ekki legið á lausu.

Danskir fjölmiðlar fjalla ítarlega um endalok fríblaðsins. Keppinautarnir fagna en í  Börsen segir að lesendurnir séu þegar farnir að sakna blaðsins. Það hafi reynt að fara aðrar leiðir en önnur fríblöð.

Starfsmenn hafa ekki fengið greitt fyrir ágúst

Ákvörðunin um að hætta útgáfunni kom skyndilega og því flestum á óvart. Fyrir helgi lýsti Lund því nefnilega yfir að hann ásældist fríblaðið MetroXpress. Forsvarsmenn þess blaðs kannast þó ekki við að hafa fengið neitt tilboð frá Lund, hvorki fyrr né síðar.

Ritzau fréttastofan greinir frá því að blaðamenn, blaðberar og aðrir starfsmenn hafi ekki fengið útborgað fyrir ágústmánuð. „Það lítur út fyrir að við höfum unnið ókeypis í ágúst," var haft eftir einum trúnaðarmanni á blaðinu, Morten Olsen, í Journalisten, fagblaði danska blaðamannafélagsins í morgun. Nú hefur hins vegar verið upplýst að forsvarsmenn blaðsins hafi áframsent launareikningana til ábyrgðarsjóðs launa í Danmörku.

Reyna að halda netútgáfunni áfram

Á fréttavef Nyhedsavisen í morgun mátti sjá fyrirsögnina: „Nyhedsavisen er hætt. Takk fyrir baráttuna." Eftir hádegi bárust hins vegar fregnir af því að reynt yrði að halda netútgáfunni áfram. Verið væri að leita að samstarfsaðilum.