Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, segir á bloggsíðu sinni í morgun að hann og Stoðir Invest hafi náð samkomulagi um skilyrði fjármögnunar á skuldum blaðsins. Ársreikningi blaðsins fyrir árið 2007 verður því skilað inn í fyrramálið, á fimmtudagsmorgni.

Lund segist biðja viðskiptavini og -félaga afsökunar á seinaganginum sem hefur fylgt samræðunum milli hluthafa félagsins. Lund segir að um lítið kraftaverk sé að ræða, þó svo að hlutirnir hafi ekki virst sérstaklega fagmannlegir að undanförnu.

Samstarfsmenn hans hafi á síðustu vikum sannað að þeir séu meðal þeirra duglegustu, og viðskiptafélagar hans séu á heimsmælikvarða. Lund segist þó áfram hafa full yfirráð yfir blaðinu.

Lund útskýrir ekki nákvæmlega með hvaða hætti hlutunum var komið í horf, en vekur máls á því að Nyhedsavisen dreifi 450.000 blöðum inn um lúgur danskra hemila, meira en 300.000 fleiri eintökum en hinir „frábæru samkeppnisaðilar Jyllands-Posten, Berlingske Tidende og Politiken".

Lund vekur máls á því að auglýsingakostnaður í Nyhedsavisen sé ekki mikið lægri en í áðurnefndum blöðum, en áhrifin séu mun meiri.