Svenn Damm, framkvæmdastjóri 365 Media Scandinavia, útgáfufélags Nyhedsavisen var rekinn í gær. Jótlandspósturinn hefur það eftir ónafngreindum heimildarmönnum að brottreksturinn tengist drögum að samningi þess efnis að Morten Lund fái milljónir danskra króna fyrir að hætta útgáfu Nyhedsavisen.

Í uppsagnarbréfinu sakar Morten Lund, aðaleigandi Nyhedsavisen, Svenn Damm um að hafa tekið trúnaðarskjöl af skrifstofu útgáfufélagsins við Gammel Strand í Kaupmannahöfn.

Samkvæmt heimildum Jótlandspóstsins snýst þetta einkum um eitt skjal: Drög að samningi sem tryggja átti Morten Lund milljónir danskra króna fyrir að hætta útgáfu Nyhedsavisen.

Peningarnir áttu, samkvæmt fréttinni, að koma frá aðaleiganda evrópska dagblaðaútgáfufélagsins Mecon Group, David Montgomery. Undir hatti Mecons er m.a. Berlingske útgáfufélagið í Danmörku, sem gaf um tíma út fríblaðið Dato í samkeppni við Nyhedsavisen.

Politiken hefur það eftir Simon Andersen, fyrrverandi yfirmanni á blaðinu, að Montgomery hafi boðið Lund fyrr í sumar 200 milljónir danskra króna fyrir að leggja blaðið niður. Lund hafi sagt Andersen frá tilboðinu, um miðjan ágúst, en sannfært hann um leið að ekki stæði til að taka því.

Fundaði oft og lengi með Lund

David Montgomery neitar því  í samtali við Jótlandspóstinn að Mecon hafi gert samning við Lund um að hætta útgáfu Nyhedsavisen. "Hver sem er getur skrifað nafn okkar á blað - þetta hefur ekkert með okkur að gera," er haft eftir honum.

Montgomery kveðst hins vegar hafa átt fjölda funda með Lund í sumar en það sama eigi við um alla blaðaútgefendur í Danmörku.

Jótlandspósturinn segir að Montgomery hafi átt margra klukkustunda fund með Lund fimmtudaginn 28. ágúst eða þremur dögum áður en ákveðið var að hætta útgáfu Nyhedsavisen.

Lund vildi ekkert tjá sig um málið við Jótlandspóstinn.

(Fréttin var uppfærð kl. 11.43)