Morten Lund, fyrrum framkvæmdastjóri 365 Media Scandinavia, útgáfufélags Nyhedsavisen var í dag úrskurðaður persónulega gjaldþrota.

Lund var úrskurðaður gjaldþrota fyrir viðskiptarétti Danmerkur (Sø- og Handelsretten), sem er sérstakur dómsstóll sem tekur á gjaldþrotaskiptum, eftir að tveir fyrrum starfsmenn Nyhedsavisen, Svenn Dam og Morten Nissen Nielsen höfðu stefnd Lund og krafið hann um 10 milljónir danskra króna.

Lund var í persónulegri ábyrgð fyrir útgáfu Nyhedsavisen og því beinist kæra starfsmannanna að honum.

Fram kemur á vef EPN að Lund hafi síðustu vikur reynt að ná samningum við starfsmennina en ekkert orðið ágengt. Þá hafi hann einnig reynt að fá persónulegri ábyrgð sinni aflétt en án árangurs.

Lund segir í samtali við EPN að hann hafi ekki áhuga á að tjá sig um máið en segir engu að síður;

„Þetta er eins og búningnum hefði verið stolið af Súperman. Ég er í sjokki og hef ekki áhuga á að tala um þetta. En ég mun snúa aftur fullur af krafti, en þá verð ég líka búinn að þvo búninginn,“ segir Lund.