Sá sem keypti fyrir 100.000 krónur í útboði Mosaic Fashion í júní 2005 fær 131.250 krónur nú tveimur árum seinna. Upphæðin verður greidd út í ágúst, ríflega þremur mánuðum eftir að greint var frá yfirtökutilboði óstofnaðs félags í eigu stærstu hluthafa. Félagið hefur nú fengið nafnið Tessera Holding ehf. og sitja hluthafar Mosaic nú með tilboð þess í höndunum.

Yfirtökutilboð Tessera Holding ehf. er upp á 17,5 krónur á hlut. Þann 2. júlí síðastliðin voru hluthafar Mosaic Fashion 874.

Lokuðu hlutafjárútboði Mosaic Fashion til fagfjárfesta lauk í 19. maí 2005. Seldir voru 272 milljón hlutir á genginu 13,6 og nam söluverð því alls 3,7 milljörðum króna. Umframeftirspurn var í útboðinu og var verðið í efri mörkum þess verðbils sem var í boði. Almennt útboð var síðan 6. til 10. júní 2005 en þá var selt hlutafé á sama verði fyrir alls um 1,2 milljarða króna. Í það heila sótti Mosaic þannig um 4,9 milljarða króna á hlutabréfamarkaðinn.

Útboð Mosaic á sínum tíma nam samtals um 13% af heildarhlutafé eftir hlutafjáraukningu. Samkvæmt því var markaðsverðmæti Mosaic um 39 milljarðar króna en til viðbótar voru vaxtaberandi skuldir um 18 milljarðar króna eftir endurfjármögnun og er heildarvirði (e. enterprise value) félagsins því um 57 milljarðar króna.

Mosaic var skráð á Aðallista Kauphallarinnar eftir að almenna hlutafjárútboðinu lauk í seinni hluta júní 2005.

Þeir sem standa á bak við Tessera Holding ehf. eru F-Capital ehf. (í eigu Baugs Group), Kaupthing Bank, Gnúpur fjárfestingafélag, Kevin Stanford, Karen Millen, The Millen Life Interest Settlement, Don M Limited, Tessera Holding auk stjórnenda Mosaic Fashions; Derek John Lovelock, Richard Spencer Glanville, Margaret Eve Lustman, John Egan, Sharon OConnor og Hannah Russell.